Valmynd
 Forsíđa
 Atburđir
 Fréttabréf
 Stjórn félagsins
 Lög félagsins
 Skráning í félagiđ
 Breytt netfang?
 Hvönnin
 Letur:  a a a
 Breidd: 
FÍF 60 ára 2007
 Félag íslenskra frćđa 60 ára
 Ávarp formanns
Ađalfundir
 2007
 2008
 2009

Aðalfundur 2007


Aðalfundur Félags íslenskra fræða, haldinn 29. mars 2007 kl. 19.00 í húsi Sögufélagsins, Fischersundi 3.

Auglýst dagskrá (í fréttabréfi vormisseris og í tölvupósti til félagsmanna):

1. Venjuleg aðalfundarstörf.
2. Lagabreytingar.
3. Önnur mál.

Fundur hófst á því að formaður stakk upp á Ármanni Jakobssyni sem fundarstjóra. Var það samþykkt einróma.

Liður 1:
Skýrsla stjórnar. Formaður félagsins gerði grein fyrir starfi vetrarins:

Á aðalfundi 6. október 2006 var kjörin ný stjórn félagsins. Þórður Ingi Guðjónsson var kjörinn formaður, Katrín Axelsdóttir gjaldkeri og Sverrir Jakobsson ritari. Meðstjórnendur: Gunnþórunn Guðmundsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir og Sigríður Þorvaldsdóttir.
Eftir aðalfundinn flutti Jónas Kristjánsson erindi um kveðskapinn í Egils sögu Skallagrímssonar.

Önnur rannsóknarkvöld vetrarins voru:

26. október 2006:
Sigrún Sigurðardóttir: Sársaukafullt augnablik.

16. nóvember (Dagur íslenskrar tungu) 2006:
Sigurður Konráðsson: Vanræksla: Hvers á íslenska að gjalda?

31. janúar 2007:
Þorgerður E. Sigurðardóttir: Eftir flóðið: Rætt um nýafstaðið jólabókaflóð.

22. febrúar 2007:
Theódóra Torfadóttir: „Samt er hún að kunna ótrúlega góða íslensku.“ – Hömlur á notkun ‘vera að’ í íslensku.

29. mars (að aðalfundi loknum):
Marteinn Helgi Sigurðsson: Einhendr áss: Um goðið Tý og samnefnda rún.

Formaður ræddi um hversu fimmtudagar hefðu reynst vel fyrir rannsóknarkvöldin, mæting yfirleitt góð, og lagði til að þessi kvöld yrðu áfram haldin á fimmtudögum, þ.e. næsta vetur (2007-2008). Var það samþykkt.

Eins og hefð er fyrir gaf félagið út tvö fréttabréf í vetur, eitt á hvoru misseri.

Rannsóknaræfing Félags íslenskra fræða var að þessu sinni haldin við lok Hugvísindaþings Háskóla Íslands, laugardagskvöldið 4. nóvember, í Tunglinu, Iðusölum við Lækjargötu. Æfingin heppnaðist mjög vel, og mæting var góð. Heiðursgestur og ræðumaður kvöldsins var Ævar Örn Jósepsson rithöfundur. Veislustjóri var Ármann Jakobsson.
Stefnt er að því að halda rannsóknaræfinguna framvegis að kvöldi sama dags og Hugvísindaþingi lýkur. Næsta Hugvísindaþing, og þar með rannsóknaræfing, verður á vormisseri 2008.

Félag íslenskra fræða 60 ára
Þegar ný stjórn tók við haustið 2006 ákvað hún að minnast þess með margvíslegum hætti að félagið yrði 60 ára, 27. apríl 2007. Ákveðið var að leggja áherslu á eftirfarandi þætti:

  1. Treysta innviði félagsins og stoðir, einkum með því að: fjölga félagsmönnum, endurskoða og lagfæra félagatalið, endurskoða lög félagsins, láta hanna merki (lógó) fyrir félagið og ljúka hönnun heimasíðunnar.
  2. Halda afmælismálstofu á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 10. mars. Þremur valinkunnum fræðimönnum yrði boðið að tala á málstofunni.
  3. Halda afmælisfagnað á sjálfan afmælisdaginn, 27. apríl 2007. Þar yrði kynnt hið nýja merki félagsins og ný heimasíða tekin í notkun.
Skemmst er frá því að segja að allir þessir þættir hafa gengið mjög vel, og eru vel á veg komnir. Vel var mætt á afmælismálstofu félagsins á Hugvísindaþingi 10. mars. Þremur fræðimönnum var boðið að tala. Höskuldur Þráinsson ræddi um málfræði, Daisy Neijmann um bókmenntir og Helgi Skúli Kjartansson um sagnfræði.

Liður 2:
Í vetur fór fram endurskoðun á lögum félagsins með aðstoð Péturs Dam Leifssonar lögfræðings. Á fundinum kynnti formaður breytingatillögurnar. Hann bar þær síðan fram til atkvæðagreiðslu og voru þær samþykktar einróma. Ný lög félagsins tóku því gildi á fundinum.

Liður 3:
Umræður fóru fram um nýtt merki félagsins, sem verður mynd af hvönn, og útfærslur sem borist höfðu frá Hlyni Ólafssyni grafískum hönnuði. Var ein tillagan samþykkt, og var ákveðið að afhjúpa merkið í afmælisfagnaði félagsins 27. apríl. Þá yrði jafnframt kynnt ný heimasíða félagsins.

Fleira var ekki á dagskrá og sleit fundarstjóri fundinum.

Þórður Ingi Guðjónsson, formaður