Valmynd
 Forsíđa
 Atburđir
 Fréttabréf
 Stjórn félagsins
 Lög félagsins
 Skráning í félagiđ
 Breytt netfang?
 Hvönnin
 Letur:  a a a
 Breidd: 
FÍF 60 ára 2007
 Félag íslenskra frćđa 60 ára
 Ávarp formanns
Ađalfundir
 2007
 2008
 2009

Skólabæ v/Suðurgötu, 27. apríl 2007

Ávarp formanns Félags íslenskra fræða, Þórðar Inga Guðjónssonar


Kæru gestir,

í dag fagnar Félag íslenskra fræða 60 ára afmæli sínu. Það var á þessum degi, 27. apríl árið 1947, sem nokkrir einstaklingar komu saman í þeim erindagjörðum að stofna „félag íslenzkufræðinga“, eins og það er nefnt í fyrstu fundabók félagsins.

Bjarni Vilhjálmsson setti fundinn og skipaði Kristján Eldjárn fundarstjóra, en Árna Kristjánsson fundarritara. Málshefjandi var Ásgeir Blöndal Magnússon. Gerði hann nokkra grein fyrir tilgangi þessa félags, ef stofnað yrði, og drap á helstu verkefni sem biðu þess: í fyrsta lagi að vinna að vexti og viðgangi íslenskra fræða og í öðru lagi að tryggja rétt félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra.

Tveim vikum síðar var á sama stað efnt til „framhaldsstofnfundar félagsskapar um íslenzk fræði“. Þar spunnust nokkrar umræður um nafn félagsins. Niðurstaðan varð sú að tillaga Ólafs Briem var samþykkt; Félag íslenskra fræða skyldi félagið heita.

Á þessum síðari stofnfundi var að lokum kosin fyrsta stjórn félagsins. Ásgeir Bl. Magnússon var kjörinn formaður, Árni Kristjánsson ritari og Helgi Halldórsson gjaldkeri.

Félag íslenskra fræða er enn í fullu fjöri og ber aldurinn vonandi vel þrátt fyrir árin sextíu. Félagið er ávallt trútt uppruna sínum, en hlutverk þess hefur þó aðeins breyst í tímans rás. Það er varla lengur réttinda- og hagsmunasamtök fyrir félagsmenn; með breyttum tímum hafa aðrir tekið við því hlutverki. Nú er tilgangur félagsins fyrst og fremst sá að skapa vettvang fyrir fræðilega umræðu, og er það einkum gert með hinum sígildu rannsóknarkvöldum sem félagið heldur reglulega yfir vetrarmánuðina.

Á aðalfundi FÍF, 6. október síðastliðinn, tók ný stjórn við taumunum. Á undanförnum mánuðum hefur hún kappkostað að bæta og efla þá þætti er lúta að innviðum og innra starfi félagsins. Strax var hafist handa við að endurskoða lög félagsins, sem voru orðin úrelt og ekki í takt við núverandi hlutverk og starfsemi félagsins. Ný lög voru síðan samþykkt á aðalfundi félagsins, 29. mars sl. Þá hefur stjórnin lagt kapp á að bæta við nýjum félagsmönnum.

Sex rannsóknarkvöld voru haldin í vetur. Þau voru öll vel sótt. Lögð var áhersla á að sýna hversu margvísleg viðfangsefni íslenskra fræðimanna eru, og var ungu fólki einkum gefið tækifæri.

Á Hugvísindaþingi sem haldið var í Háskóla Íslands dagana 9.–10. mars sl. stóð félagið fyrir afmælismálstofu. Þar fluttu erindi Daisy L. Neijmann, Helgi Skúli Kjartansson, og Höskuldur Þráinsson. Málstofan heppnaðist afar vel, enda erindin áhugaverð, og áheyrendur létu sig heldur ekki vanta.

Þegar ný stjórn tók við í haust runnu fljótlega á hana tvær grímur þegar í ljós kom að ofan á allt annað var stór-afmælisár handan við hornið. Þetta var þó fyrst og fremst verðug áskorun. Við einsettum okkur strax í upphafi að treysta innviði félagsins og þar með stoðir þess. Í því skyni settum við okkur það markmið að fjölga félagsmönnum, koma þeim með öðrum orðum vel upp fyrir 300-manna markið, endurskoða lög félagsins og síðast en ekki síst að endurvekja rannsóknaræfinguna, sem fallið hafði niður árið áður. Öll þessi markmið náðust. Sérstaklega í tilefni afmælisins vildum við einnig gera þrennt: halda sérstaka afmælismálstofu í nafni félagsins á Hugvísindaþingi, koma heimasíðu félagsins í gagnið og síðan en ekki síst að gefa félaginu í afmælisgjöf merki (lógó), sem öll virðuleg félög þurfa að eiga (afmælisbarnið yrði þó sjálft að leggja út fyrir kostnaði, sem reyndist síðan ekki mikill þegar upp var staðið!). Þessi markmið náðust einnig öll; og nú er einmitt komið að þeim lið að kynna fyrir gestum heimasíðuna og merkið.

Að ávarpi sínu loknu opnaði formaður félagsins, Þórður Ingi Guðjónsson, nýja heimasíðu félagsins, sem er hönnuð af Bjarka M. Karlssyni.

Því næst kynnti formaður nýtt merki (lógó) félagsins, en það er mynd af hvönn. Hönnuður þess er Hlynur Ólafsson. Katrín Axelsdóttir, sem átti hugmyndina að merkinu, flutti stutt erindi um hvönnina og útskýrði hvers vegna hún varð fyrir valinu (erindi Katrínar er að finna undir flipanum Hvönnin á aðalsíðunni).

Að lokum voru fjórir valinkunnir félagsmenn heiðraðir: Árni Björnsson, Guðrún Kvaran, Helga Kress og Ólafur Halldórsson. Þau Guðrún og Ólafur gátu ekki verið viðstödd samkomuna, en það voru hins vegar Árni og Helga, og fluttu þau bæði stutt erindi og þökkuðu heiðurinn. Öll fengu þau skrautritað heiðursskjal frá félaginu.

Eftir þetta sleit formaður formlegri dagskrá, en bauð fyrir hönd félagsins öllum viðstöddum, sem voru fjölmargir, upp á veitingar í fljótandi og föstu formi.