Valmynd
 Forsíđa
 Atburđir
 Fréttabréf
 Stjórn félagsins
 Lög félagsins
 Skráning í félagiđ
 Breytt netfang?
 Hvönnin
 Letur:  a a a
 Breidd: 
FÍF 60 ára 2007
 Félag íslenskra frćđa 60 ára
 Ávarp formanns
Ađalfundir
 2007
 2008
 2009
Í tilefni af 60 ára afmæli FÍF birtist eftirfarandi grein í Morgunblaðinu, 27. apríl 2007

Félag íslenskra fræða 60 ára

Á þessum degi, 27. apríl, fyrir sextíu árum, þegar lýðveldið unga var enn að slíta barnsskónum, hittust nokkrir einstaklingar í I. kennslustofu Háskóla Íslands í þeim erindagjörðum að stofna „félag íslenzkufræðinga“, eins og það er nefnt í fyrstu fundabók Félags íslenskra fræða. Bjarni Vilhjálmsson setti fundinn og skipaði Kristján Eldjárn fundarstjóra, en Árna Kristjánsson fundarritara. Málshefjandi var Ásgeir Blöndal Magnússon. Gerði hann nokkra grein fyrir tilgangi þessa félags, ef stofnað yrði, og drap á helstu verkefni sem biðu þess: í fyrsta lagi að vinna að vexti og viðgangi íslenskra fræða og í öðru lagi að tryggja rétt félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra. Frá þessum upphafsfundi segir síðan í Fundabók félagsins:

Nokkrar umræður urðu um málið fram og aftur og voru allir ræðumenn þess mjög fýsandi að félag þetta yrði stofnað. Var þá tillaga fundarboðenda um félagsstofnunina borin upp og samþykkt með samhljóða atkvæðum allra fundarmanna.

Í lok fundarins var kosin nefnd til að fjalla um uppkast að lögum félagsins. Hana skipuðu Jón Jóhannesson, Kristján Eldjárn og Árni Kristjánsson.

Tveim vikum síðar var á sama stað efnt til „framhaldsstofnfundar félagsskapar um íslenzk fræði“. Þar spunnust nokkrar umræður um nafn félagsins. Lagt hafði verið til að félagið héti „Saga og tunga“. „Mætti það nafn þegar miklum andblæstri,“ segir í Fundabók. Var þá leitað tillagna um önnur nöfn, og kom hin fyrsta frá Helga Halldórssyni sem lagði til að félagið héti „Félag íslenzkufræðinga“. Það hlaut heldur ekki mikinn hljómgrunn; „var því einkum fundið til foráttu að þeim sem hefðu Íslandssögu að sérgrein mundi þykja gengið fram hjá sér með þeirri nafngift.“ Þá kom fram „miðlunaruppástunga“ frá Bjarna Vilhjálmssyni og Jóhannesi Halldórssyni, að nafnið yrði: Félagið „Íslenzk fræði“. „Létu flutningsmenn þess þó getið, að þeir væru engan veginn ánægðir með nafnið, en það hefði þó þann kost að engum gæti fundizt fram hjá sér gengið“ (úr Fundabók). Þriðja uppástungan kom frá Ólafi Briem þess efnis að félagið héti Félag íslenzkra fræða. Síðan segir í Fundabók:

Eftir allmikið þóf fram og aftur dró Helgi Halldórsson sína tillögu til baka, en hinar voru bornar undir atkvæði. Var þá fyrst borin fram tillaga Bjarna Vilhjálmssonar og Jóhannesar Halldórssonar og féll hún með jöfnum atkvæðum ... en tillaga Ólafs Briem var samþykkt með 6 atkv. gegn 3.

Á þessum síðari stofnfundi var að lokum kosin fyrsta stjórn félagsins. Ásgeir Blöndal Magnússon var kjörinn formaður, Árni Kristjánsson ritari og Helgi Halldórsson gjaldkeri.

Félag íslenskra fræða er enn í fullu fjöri og ber aldurinn vel þrátt fyrir árin sextíu. Félagið er ávallt trútt uppruna sínum, en hlutverk þess hefur þó aðeins breyst í áranna rás. Það er varla lengur réttinda- og hagsmunasamtök fyrir félagsmenn; með breyttum tímum hafa aðrir tekið að sér það hlutverk. Nú er tilgangur félagsins fyrst og fremst sá að skapa vettvang fyrir fræðilega umræðu, eða eins og segir í 2. gr. núgildandi laga: „að efla íslensk fræði og efna til skoðanaskipta og samvinnu um þau úrlausnarefni sem fyrir liggja hverju sinni.“ Þetta hefur félagið jafnan í heiðri, og heldur sín kunnu og sígildu rannsóknarkvöld reglulega yfir vetrarmánuðina.

Á aðalfundi FÍF, 6. október síðastliðinn, tók ný stjórn við taumunum. Á undanförnum mánuðum hefur hún kappkostað að bæta og efla þá þætti er lúta að innviðum og innra starfi félagsins, og með því treyst stoðirnar. Strax var hafist handa við að endurskoða lög félagsins, sem voru orðin úrelt og ekki í takt við núverandi hlutverk og starfsemi félagsins. Ný lög voru síðan samþykkt á aðalfundi félagsins, 29. mars sl. Þá hefur stjórnin lagt kapp á að bæta við nýjum félagsmönnum. Skráðir félagar eru nú ríflega 300 talsins.

Sex rannsóknarkvöld voru haldin í vetur. Þau voru öll vel sótt, og spunnust fjörugar umræður eftir hvern fyrirlestur. Lögð var áhersla á að sýna hversu margvísleg viðfangsefni íslenskra fræðimanna eru, og var ungu fólki einkum gefið tækifæri.

Á hugvísindaþingi sem haldið var í Háskóla Íslands dagana 9.-10. mars sl. stóð félagið fyrir afmælismálstofu. Þar fluttu erindi Daisy L. Neijmann, sem gegnir stöðu lektors í íslensku við University College í London, Helgi Skúli Kjartansson, prófessor í sagnfræði við Kennaraháskóla Íslands, og Höskuldur Þráinsson, prófessor í málfræði við Háskóla Íslands. Málstofan heppnaðist afar vel, enda erindin áhugaverð, og áheyrendur létu sig heldur ekki vanta.

Í dag býður stjórn Félags íslenskra fræða félagsmönnum og öðrum velunnurum til afmælisfagnaðar í Skólabæ við Suðurgötu kl. 17.15. Þar verður m.a. kynnt nýtt merki félagsins og ný heimasíða tekin formlega í notkun.

Þórður Ingi Guðjónsson, formaður