Valmynd
 Forsíđa
 Atburđir
 Fréttabréf
 Stjórn félagsins
 Lög félagsins
 Skráning í félagiđ
 Breytt netfang?
 Hvönnin
 Letur:  a a a
 Breidd: 
FÍF 60 ára 2007
 Félag íslenskra frćđa 60 ára
 Ávarp formanns
Ađalfundir
 2007
 2008
 2009

Aðalfundur 2008


Aðalfundur Félags íslenskra fræða, haldinn sumardaginn fyrsta, 24. apríl 2008 kl. 19.00 í húsi Sögufélagsins, Fischersundi 3.

 

Auglýst dagskrá (í fréttabréfi vormisseris og í tölvupósti til félagsmanna):

 

1.            Venjuleg aðalfundarstörf.

2.            Kjör til stjórnar.

3.            Önnur mál.

 

Fundur hófst á því að formaður, Þórður Ingi Guðjónsson, stakk upp á sjálfum sér sem fundarstjóra. Það var samþykkt einróma.

 

Liður 1:

Skýrsla stjórnar. Formaður félagsins gerði grein fyrir starfi vetrarins:

 

Um var að ræða annað starfsár þessarar stjórnar, sem tók við taumunum 6. okt. 2006.

Rannsóknarkvöldin sem fyrr kjarninn í starfi félagsins. Þau voru óvenjumörg að þessu sinni, eða alls átta; þrjú á haustmisseri, fimm á vormisseri.

 

Rannsóknarkvöld vetrarins voru (jafnan haldin síðasta fimmtudag í mánuði):

 

27. september 2007:

Lára Magnúsardóttir: Að trúa heimildunum: Merking og mikilvægi hugtaka sem tengjast bannfæringu í heimildum frá miðöldum.

 

25. október 2007:

Ingunn Ásdísardóttir: Íslands-Freyja.

 

29. nóvember 2007:

Benedikt Hjartarson: Úr foraði evrópskrar nútímamenningar: Viðhorf til framúr-stefnu í íslenskri menningarumræðu þriðja áratugarins.

 

31. janúar 2008:

Jón G. Friðjónsson: Það skal vanda sem lengi á að standa: Um biblíuþýðinguna nýju.

 

21. febrúar 2008:

Kristján Eiríksson: Ljóðmæli Einars í Eydölum og útgáfur bundins máls frá lær-dómsöld.

 

6. mars 2008 (í Odda, Háskóla Íslands):

Guðrún Kvaran: Biblía 21. aldar: Verklag og viðtökur – gagnrýni svarað.

 

27. mars 2008:

Ragnhildur Richter, Sigríður Stefánsdóttir og Steingrímur Þórðarson: Íslenska í framhaldsskólum.

 

24. apríl (að aðalfundi loknum):

Aðalheiður Guðmundsdóttir: „Gangið hægt um gleðinnar dyr“ – Um skemmtanasiði Íslendinga fyrr á öldum.

 

Formaður ræddi um þá miklu athygli sem fyrirlestrarnir um nýju biblíuþýðinguna fengu. Fékk félagið mikla kynningu fyrir vikið.

 

 

Eins og venjulega gaf félagið út tvö fréttabréf í vetur, eitt á hvoru misseri.

 

 

Ályktun FÍF

28. september 2007 sendi FÍF frá sér ályktun sem birtist í öllum helstu fjölmiðlum um þá umræðu sem var í samfélaginu á þeim tíma um tvítyngda stjórnsýslu. Ályktunin var svohljóðandi:

 

Félag íslenskra fræða harmar þær hugmyndir sem komið hafa fram að enska verði gerð að stjórnsýslumáli samhliða íslenskunni og enska verði hið ríkjandi mál íslenskra bankafyrirtækja. Það er mikilvægt fyrir viðgang tungumálsins að á sem flestum sviðum verði áfram hugsað og talað á íslensku. Íslendingar hafa ekki ríkari ástæðu til að taka upp ensku sem stjórnsýslumál en aðrar þjóðir. Í samfélagi þjóðanna ræður fjölbreytnin ríkjum og það auðgar menningu heimsins. Íslensk tunga er aðeins þjóðtunga í þessu eina landi og er jafnframt framlag Íslendinga til heimsmenningarinnar. Það væri óbætanlegur skaði ef svo færi að íslenska yrði aðeins töluð á heimilum en ekki alls staðar í samfélaginu.

 

Á fundinum ræddi formaður almennt um ályktanir sem félagið sendi frá sér. Síðustu ár hefur það ekki gerst oft að félagið álykti um mál, en það var samdóma álit fundarmanna að félagið mætti gera það oftar. Þó ekki oftar en nauðsyn krefur, heldur verður að meta mál hverju sinni, og þau verða auðvitað að varða íslensk fræði og menningu.

 

 

Umsögn um tillögu til þingsályktunar frá alþingi

Í mars 2008 var FÍF beðið um semja umsögn um þingsályktunartillögu um prófessorsembætti við Háskóla Íslands, kennt við Jónas Hallgrímsson. Var hún send alþingi 19. mars.

 

 

Rannsóknaræfing

Rannsóknaræfing FÍF var eins og síðast (haustið 2006) haldin við lok Hugvísindaþings Háskóla Íslands, laugardagskvöldið 5. apríl 2008, í sal ReykjavíkurAkademíunnar, (gamla) JL-húsinu við Hringbraut. Æfingin heppnaðist vel, og mæting var með ágætum. Heiðursgestur og ræðumaður kvöldsins var Guðni Elísson. Veislustjóri var Þórdís Gísladóttir.

 

Formaður reifaði ýmis mál varðandi rannsóknaræfinguna, s.s. undirbúning hennar, mikilvægi „smölunar“, mætingu o.fl. Nokkur umræða fór fram meðal fundarmanna um þessi mál. (Tekið skal fram að af ásettu ráði hélt stjórnin ekki rannsóknaræfingu árið 2007, þar sem um var að ræða stórt afmælisár hjá félaginu (60 ára), og var í stað Æfingar haldinn afmælisfagnaður, 27. apríl 2007, eins og fram kemur í skýrslu aðalafundar 2007.)

 

Að síðustu, undir þessum lið, gerði gjaldkeri félagsins, Katrín Axelsdóttir, grein fyrir reikningum félagsins. Þeir voru samþykktir einróma.

 

 

Liður 2:

Undir þessum lið fór fram kjör til stjórnar. Stjórn FÍF, skipuð þeim Þórði Inga Guðjónssyni (formanni), Katrínu Axelsdóttur (gjaldkera) og Sverri Jakobssyni (ritara) gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í aðalstjórn. Stjórninni höfðu borist framboð þeirra: (til formanns) Láru Magnúsardóttur, (til gjaldkera) Guðrúnar Þórðardóttur og (til ritara) Yelenu Sesselju Helgadóttur. Voru þessi framboð borin fram til atkvæðagreiðslu, hvert í sínu lagi, og voru þau öll samþykkt einróma. Ný stjórn félagsins telst því rétt kjörin.

Til setu í varastjórn voru kosin: Katrín Axelsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir og Þórður Ingi Guðjónsson.

Fyrsta starfsár nýrrar stjórnar verður því veturinn 2008–09.

 

 

Liður 3:

Engar tillögur við þennan lið höfðu borist stjórninni.

En fráfarandi formaður félagsins, Þórður Ingi Guðjónsson, flutti eftirfarandi kveðju-orð:

 

„Í dag, eins og stundum áður hjá þessu virðulega félagi, eru ákveðin vatnaskil þar sem ný stjórn tekur við taumunum.

Mig langar fyrst fyrir hönd fráfarandi stjórnar að færa fram þakkir. Sérstakar þakkir færum við Ragnheiði Þorláksdóttur, sem ræður ríkjum hér í húsi Sögufélagsins, en starfinu hér stýrir hún með miklum myndarbrag og hlýleika, af ósérhlífni og gestrisni. (Ragnheiði voru færð blóm.)

Í síðasta sinn úr stóli formanns leyfi ég mér að tala á ögn persónulegum nótum. Formannstíð mín var stutt en afar gefandi og lærdómsrík. Um árangur verða aðrir að dæma. Meðstjórnendum mínum í stjórn FÍF vil ég þakka gott og farsælt samstarf sem aldrei hefur borið skugga á. Það hefur verið ómetanlegt að hafa fyrrum formann félagsins, Sigríði Þorvaldsdóttur, til taks – skrafs og ráðagerða. Margrét hefur verið mikilvægur tengiliður við ýmsa innviði háskólans. Við Sverrir Jakobsson höfum þekkst um alllangt skeið, og má segja að hann hafi notið þess fullmikið þegar störf í þágu félagsins voru annars vegar(!) Katrínu Axelsdóttur þakka ég sérstaklega fyrir afar farsælt og viðburðaríkt samstarf. Við þekktumst ekki mikið áður en Sigríður leiddi okkur saman til að stýra félaginu. En ég segi frá mínum bæjardyrum að kynnin hafa verið afar góð, samstarfið ánægjulegt í alla staði og hnökralaust. Það var af því mikill styrkur fyrir mig og öryggi að eiga Katrínu að samstarfsfélaga í þessu hlutverki sem ég hef gegnt undanfarin tvö ár.

Að síðustu þakka ég fyrir mig.“

 

 

Fleira var ekki á dagskrá, og sleit fundarstjóri fundinum.

 

    Þórður Ingi Guðjónsson, formaður